Bílrúðutrygging
Um vátrygginguna gilda:
- Vátryggingarskírteinið ásamt áritunum og sérskilmálum.
- Skilmálar þessir nr. (númer) 229.
- Sameiginlegir skilmálar Verna nr. 226.
- Lög um vátryggingarsamninga nr. 30/2004.
- Notkunarskilmálar smáforrits Verna.
Ákvæði í vátryggingar- og endurnýjunarskírteini ganga framar ákvæðum í skilmálum þessum. Ákvæði í vátryggingarskírteini, endurnýjunarskírteini og skilmálum þessum ganga framar lagaákvæðum sem heimilt er að víkja frá.
Verna MGA ehf. („Verna“) er umboðsaðili og TM tryggingar hf. („félagið“) vátryggjandi.
1. Vátryggðir hagsmunir
1.1. Vátryggingin gildir fyrir bifreið til einkanota sem tilgreind er í vátryggingar- eða endurnýjunarskírteini.
1.2. Vátryggingin gildir ekki um breytta bifreið eða bifreið sem er atvinnutæki, t.d. (til dæmis) leigubifreið, bílaleigubifreið, vörubifreiðeða rútu.
2. Vátryggður
2.1. Skráður eigandi bifreiðar er vátryggður.
2.2. Vátryggingin er aðeins til hagsbóta fyrir vátryggðan en ekki veðhafa eða aðra eigendur óbeinna eignaréttinda í hinu vátryggða, nema um annað hafi verið samið eða leiði af ófrávíkjanlegum lagaákvæðum.
2.3. Vátryggingin er heldur ekki til hagsbóta fyrir nýjan eiganda og fellur niður við eigendaskipti. Vátryggingin gildir þó fyrir nýjan eiganda ef vátryggingaratburður verður innan 14 daga frá eigendaskiptum og nýi eigandinn hefur ekki sjálfur tekið vátryggingu.
3. Hvar vátryggingin gildir
3.1. Vátryggingin gildir á Íslandi.
3.2. Vátryggingin gildir ekki við akstur á vegum eða vegarköflum þar sem bannað er að aka bifreiðum samkvæmt fyrirmælum réttra yfirvalda, eða við akstur yfir óbrúaðar ár og læki, um fjörur, forvaða eða aðrar vegleysur. Þó bætast skemmdir á bifreiðinni ef það sannast að þær urðu þegar ökumaður bifreiðar verður að fara út fyrir akbraut, t.d. vegna viðgerðar á akbrautinni.
4. Bótasvið
4.1. Vátryggingin þessi bætir tjón:
4.1.1. Vegna brots á fram-, hliðar- og afturrúðu hinnar vátryggðu bifreiðar ásamt kostnaði við ísetningu.
4.2. Vátrygging bætir ekki tjón:
4.2.1. Þegar eingöngu flísast úr rúðu eða hún rispast.
4.2.2. Á rúðu sem brotnar við úrtöku eða ísetningu.
4.2.3. Vegna afnotamissis bifreiðar.
4.2.4. Á sóllúgu og glerþaki bifreiðar.
5. Hverjar eru mínar skyldur (sbr. (samanber) 12. tl. (töluliður) 1. mgr. (málsgreinar) 2. gr. (greinar) laga um vátryggingarsamninga)?
5.1. Ökumaður hinnar vátryggðu bifreiðar skal hafa þau réttindi og kunnáttu sem krafist er til þess að aka henni.
5.2. Ökumaður skal ekki vera undir áhrifum áfengis, ávana- eða fíkniefna við notkun bifreiðar né annarra örvandi eða deyfandi efna.
5.3. Bifreið skal vera læst og lokað þegar enginn er í henni og geyma skal lykla á öruggum stað.
5.4. Ekki skal nota bifreið til annars aksturs en þess sem getið er í vátryggingar- eða endurnýjunarskírteini.
5.5. Vátryggður skal viðhalda bifreið í samræmi við fyrirmæli og leiðbeiningar framleiðanda.
5.6. Vátryggður skal fara eftir opinberum fyrirmælum um skoðun bifreiðar og sjá til þess að það uppfylli kröfur um gerð og búnað á hverjum tíma.
5.7. Vátryggður skal sjá til þess að öryggisbúnaður bifreiðar sé ávallt í lagi.
6. Útreikningur iðgjalds (sérákvæði)
6.1. Ákvarðanir um útgáfu vátryggingar og iðgjald eru teknar með sjálfvirkum hætti, m.a. með gerð persónusniðs. Um eru að ræða upplýsingar frá Þjóðskrá Íslands og Samgöngustofu, auk upplýsinga um aksturseinkunn og fjölda ekinna kílómetra.
6.2. Iðgjaldið byggir bæði á föstum þáttum (grunniðgjald) og breytilegum þáttum. Fastir þættir haldast óbreyttir á vátryggingartímanum, en þeir eru vélarstærð, verðmæti og aldur hinnar vátryggðu bifreiðar, svo og aldur vátryggðs (eiganda eða umráðamanns bifreiðarinnar), fjölskylduhagir hans og hvar lögheimili hans er. Breytilegir þættir iðgjaldsins geta breyst mánaðarlega á vátryggingartímanum, en þeir byggjast á mánaðarlegum mælingum úr smáforriti Verna (smáforritinu) sem veitir upplýsingar um aksturseinkunn, sbr. gr. 1.3 og 1.4, sem getur leitt til lækkunar eða hækkunar iðgjaldsins á milli mánaða.
6.3. Aksturseinkunn getur verið á bilinu 0 til 100. Grunniðgjald vátryggingarinnar miðast við aksturseinkunnina 60. Aksturseinkunn hærri en 60 veitir afslátt frá grunniðgjaldinu þar sem einkunnin 100 veitir 40% afslátt. Einkunn lægri en 60 veldur á hinn bóginn álagi á grunniðgjaldið þar sem einkunnin 40 eða lægri veldur 25% álagi. Á vátryggingar- og endurnýjunarskírteini kemur fram hvert iðgjaldið er í upphafi vátryggingartímabils og sú aksturseinkunn sem iðgjaldið miðast við.
6.4. Eftirfarandi þættir hafa áhrif á aksturseinkunn skv. gr.1.3:
- a. Mýkt sem mælir hversu snöggt ökumaður ekur af stað eða hemlar, svo og hversu mjúk hreyfing bifreiðarinnar er meðan á akstri stendur.
- b. Hraði sem er mæling út frá hraða annarra ökutækja sem aka á sama stað.
- c. Einbeiting sem er notkun síma við akstur, s.s. hvort verið er að tala í símann, senda skilaboð eða nota hann með öðrum hætti.
- d. Tími dags sem ekið er. Það er áhættusamara að aka á háannatíma í umferðinni á virkum dögum og á nóttinni frekar en á öðrum tímum sólarhringsins.
- e. Þreyta við akstur í langan tíma. Í langkeyrslu þarf ökumaður að taka sér hvíld til að halda fullri athygli.
6.5. Aksturseinkunn reiknast á mánaðartímabili og nýtist við iðgjaldaútreikning fyrir næsta mánuð. Aksturseinkunn er núll still í byrjun hvers mánaðar en breytist svo innan mánaðarins í samræmi við akstur.
6.6. Smáforritið samþykkir sjálfkrafa innan 48 tíma frá ferð sem vátryggður fer samkvæmt forritinu að innifela ferðina í útreikningi aksturseinkunnar. Innan þess tíma getur vátryggður hafnað að innifela ferðina í útreikningnum ef sérstök ástæða er fyrir því, t.d. ef hann var farþegið í annarri bifreið í viðkomandi ferð.
6.7. Ef viðskiptavinur hafnar kerfisbundið slæmum ferðum til að hafa áhrif á aksturseinkunn sína mun það hafa áhrif á áhættumatið sem liggur til grundvallar við ákvörðun iðgjalds þegar kemur að endurnýjun tryggingar.
6.8. Við ákvörðun iðgjalds þegar vátrygging er tekin er félaginu heimilt að afla upplýsinga frá öðrum vátryggjendum um tjónareynslu vátryggðs í þessari grein vátrygginga.
6.9. Ef minna en 200 km eru eknir á mánuði samkvæmt smáforritinu miðast iðgjald mánaðarins við grunniðgjaldið auk hámarksálags, þ.e. aksturseinkunnina 40. Ef fyrirsjáanlegt er að akstur í komandi mánuði verður lægri en 200 km, t.a.m. vegna orlofs, getur vátryggður tilkynnt það fyrir fram til Verna og miðast þá iðgjald þess mánaðar við aksturseinkunn í mánuðinum þar á undan.
6.10. Við endurnýjun vátryggingarinnar breytist grunniðgjaldið í samræmi við breytingar á vísitölu og iðgjaldaskrá félagsins auk þess sem aksturseinkunn miðast við þá aksturseinkunn sem vátryggður hafði við lok fyrra vátryggingartímabils.
7. Hvernig eru bætur ákvarðaðar
7.1. Verna ræður hvort það greiði kostnað við að skipta um skemmda rúðu, þ.e. ísetningarkostnað og nýja rúðu eða sambærilega þeirri sem varð fyrir skemmdum, eða hvort það greiði kostnað vegna viðgerðar á henni.
7.2. Leita skal til viðgerðaraðila sem hafa gert samning við Verna vegna rúðuskipta eða viðgerðar á rúðunni. Verna er ekki skylt að greiða bætur fyrir rúðuskipti eða viðgerð sem hafin er án samþykkis þess.
8. Eigin áhætta (sérákvæði)
8.1. Ef skipta þarf um rúðu ber vátryggingartaki í hverju tjóni eigin áhættu sem fram kemur í vátryggingar- eða endurnýjunarskírteini.
8.2. Ef eingöngu gert er við rúðu, í stað rúðuskipta, ber vátryggingartaki enga eigin áhættu í tjóninu.
9. Áhættumat
9.1. Verna áskilur sér rétt til áhættuskoðunar á bifreiðinni við töku vátryggingar, við endurnýjun eða hvenær sem er á vátryggingartímabilinu.
Þessir skilmálar gilda frá og með 8. apríl 2022.