Ágreiningur
Þegar ágreiningur kemur upp
Það geta komið upp tilfelli þar sem Verna og viðskiptavinur eru ekki sammála um hvort tjón eigi að vera bætt. Ef slík staða kemur upp er hægt að leita til eftirfarandi aðila:
Tjónanefnd vátryggingafélaganna
Tilgangur nefndarinnar er að bjóða upp á skjótvirkt úrræði til að fá skorið úr því hvernig skipta beri ábyrgð vegna tjóna af völdum ökutækja þegar ágreiningur rís um málsatvik, sök eða sakarskiptingu í tengslum við umferðaróhöpp. Þetta á einungis við um mál í tengslum við ákvörðun á bótaskyldu úr lögboðnum tryggingum, ekki kaskó. Óski aðili eftir því að fá máli sínu vísað til nefndarinnar sér Verna um að vísa málinu til meðferðar sem og að tilkynna aðilum máls um niðurstöðu nefndarinnar. Álit tjónanefndar er ekki bindandi fyrir viðskiptavini eða tjónþola og eiga þeir þess kost að skjóta ágreiningsmáli til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum eða eftir atvikum til almennra dómstóla.
Málsmeðferð nefndarinnar tekur að jafnaði eina viku og er málskot til tjónanefndar endurgjaldslaust. Nefndin starfar á vegum SFF og bera þau vátryggingafélög sem aðild eiga að samtökunum allan kostnað af rekstri hennar.
Úrskurðarnefndar vátryggingamála
Úrskurðarnefnd vátryggingamála tekur til afgreiðslu ágreiningsmál sem lúta að sakarmati, bótaskyldu tryggingafélags og uppsögn samninga. Nefndin fjallar vanalega ekki um bótafjárhæð nema að bæði tjónþoli og vátryggingafélagið hafi óskað eftir því. Einstaklingum er heimilt að skjóta til nefndarinnar ágreiningi um fjárhæðir vegna vátryggingarsamnings milli hans og félagsins nemi ágreiningurinn að lágmarki kr. 25.000 og að hámarki kr. 5.000.000. Úrskurðarnefndin fjallar ekki um mál sem tengjast ágreiningi sem yfirvöld eru aðilar að, þegar tjón geta ekki verið metin til fjár, ágreiningi vegna breytinga á iðgjöldum, mál sem eru þegar fyrir dómstólum eða mál sem teljast of óljós til að vera tekin til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.
Þegar ágreiningsmáli hefur verið beint til nefndarinnar hafa aðilar – viðskiptavinur og vátryggingafélagið - tvær vikur til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við nefndina. Ef þriðji aðili tengist ágreiningnum er vátryggingafélagið ábyrgt fyrir því að upplýsa viðkomandi um að ágreiningur sé til staðar. Nefndin leggur áherslu á að virða andmælarétt allra málsaðila áður en hún kveður upp sinn úrskurð.
Niðurstöður úrskurðarnefndar eru ekki bindandi fyrir neytendur sem geta beint málinu til dómstóla. Niðurstöður úrskurðarnefndar eru bindandi fyrir vátryggingafélagið nema það geri athugasemd innan tveggja vikna frá því að félaginu barst niðurstaðar nefndarinnar.
Nefndin starfar samkvæmt samkomulagi Fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Neytendasamtakanna og Samtaka fjármálafyrirtækja og ber einstaklingum að greiða 10.000 kr. til 25.000 kr. í málskostnað. Aðilar þurfa einnig að fylla út tiltekið eyðublað og senda til nefndarinnar ásamt öðrum gögnum málsins. Nefndin er til húsa í Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík og er netfangið tryggingar@nefndir.is. Hægt er að hringja á þriðjudögum milli kl. 10-11 og fimmtudögum milli kl. 14-15 í síma 578-6500.