Lögboðnar bílatryggingar
Um vátrygginguna gilda:
- Vátryggingarskírteini ásamt áritunum og sérskilmálum.
- Skilmálar þessir nr.(númer) 227.
- Sameiginlegir skilmálar Verna nr. 226.
- Lög um vátryggingarsamninga nr. 30/2004.
- Notkunarskilmálar smáforrits Verna.
Ákvæði í vátryggingarskírteini og endurnýjunarskírteini ganga framar ákvæðum í skilmálum þessum. Ákvæði í vátryggingarskírteini, endurnýjunarkvittun og skilmálum ganga framar lagaákvæðum sem heimilt er að víkja frá.
Lögboðin bifreiðatrygging Verna bætir tjón skv. (samkvæmt) lögum um ökutækjatryggingar nr. 30/2019 og reglugerðar um ökutækjatryggingar nr. 1244/2019. Verna MGA ehf. („Verna“) er umboðsaðili og TM tryggingar hf. („félagið“) vátryggjandi.
A. Almenn ákvæði
Kafli A gildir einnig um kafla B og C í þessum skilmálum.
1. Vátryggðir hagsmunir
1.1. Vátryggingin gildir fyrir bifreið til einkanota sem tilgreind er í vátryggingar- eða endurnýjunarskírteini.
1.2. Iðgjald fyrir vátrygginguna tekur m.a. (meðal annars) mið af því hver notkun bifreiðar er, þ.e.(það er) að hún sé til einkanota. Notkun bifreiðar sem atvinnutækis, s.s. (svo sem) sem leigubifreið, leiðir til aukningar á vátryggðri áhættu og verði tjón vegna slíkrar notkunar skerðist ábyrgð félagsins gagnvart vátryggðum að tiltölu um mismun á umsömdu iðgjaldi og því iðgjaldi sem félagið hefði með réttu áskilið sér vegna hinnar breyttu notkunar.
1.3. Vátryggingin gildir ekki þegar bifreið er notuð í öðrum tilgangi en sem ökutæki né heldur þegar bifreiðin tekur þátt í aksturskeppni á lokuðu svæði sem leyfi hefur fengist fyrir samkvæmt umferðarlögum, sbr. (samanber) 2. gr.(grein) laga um ökutækjatryggingar nr. 30/2019.
2. Hvar vátryggingin gildir
2.1. Vátryggingin gildir um notkun bifreiðar á Íslandi og í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Einnig gildir vátryggingin í Sviss og Færeyjum.
2.2. Vegna aksturs erlendis í öðrum ríkjum en fram kemur í gr. 2.1. skal vátryggingartaki áður en ekið er erlendis sækja til Verna alþjóðlegt vátryggingarkort (grænt kort) vegna ábyrgðartryggingar bifreiðar, enda eigi viðkomandi ríki aðild að samningi um notkun slíks vátryggingarkorts.
3. Ábyrgðartími
3.1. Vátryggingin tekur til vátryggingaratburðar sem verður á vátryggingartímabilinu.
3.2. Komi afleiðingar atburðar sem tjón hefur hlotist af og gerst hefur á vátryggingartímabilinu ekki í ljós fyrr en vátryggingin er fallin úr gildi greiðir félagið samt sem áður bætur.
3.3. Enda þótt ábyrgðartryggingin falli úr gildi ber félagið áfram ábyrgð gagnvart þriðja manni á sérhverju tjóni sem verður þar til fjórar vikur eru liðnar frá því að tilkynning var send Samgöngustofu um niðurfellingu vátryggingar eða skráningarmerki voru lögð inn til Samgöngustofu, nema önnur fullnægjandi vátrygging hafi verið keypt.
4. Hverjar eru mínar skyldur (sbr. (samanber) 12. tl.(töluliður) 1. mgr. (málsgreinar) 2. gr. laga um vátryggingarsamninga)?
4.1. Ökumaður hinnar vátryggðu bifreiðar skal hafa þau réttindi og þá kunnáttu sem krafist er til þess að aka henni.
4.2. Ekki skal nota bifreið til annars konar aksturs en til einkanota, t.d. (til dæmis) skal ekki nota bifreið sem leigubifreið.
4.3. Ökumaður skal ekki vera undir áhrifum áfengis, ávana- eða fíkniefna við notkun bifreiðar né annarra örvandi eða deyfandi efna.
4.4. Vátryggður eigandi eða umráðamaður skal fara eftir opinberum fyrirmælum um skoðun bifreiðar og sjá til þess að hún uppfylli kröfur um gerð og búnað á hverjum tíma.
4.5. Vátryggður eigandi eða umráðamaður skal viðhalda bifreið í samræmi við fyrirmæli og leiðbeiningar framleiðanda.
4.6. Vátryggður eigandi eða umráðamaður skal sjá til þess að öryggisbúnaður bifreiðar sé ávallt í lagi, s.s. hjólbarðar og hemlunarbúnaður.
5. Útreikningur iðgjalds (sérákvæði)
5.1. Ákvarðanir um útgáfu vátryggingar og iðgjald eru teknar með sjálfvirkum hætti, m.a. með gerð persónusniðs. Um eru að ræða upplýsingar frá Þjóðskrá Íslands og Samgöngustofu, auk upplýsinga um aksturseinkunn og fjölda ekinna kílómetra.
5.2. Iðgjaldið byggir bæði á föstum þáttum (grunniðgjald) og breytilegum þáttum. Fastir þættir haldast óbreyttir á vátryggingartímanum, en þeir eru vélarstærð, verðmæti og aldur hinnar vátryggðu bifreiðar, svo og aldur vátryggðs (eiganda eða umráðamanns bifreiðarinnar), fjölskylduhagir hans og hvar lögheimili hans er. Breytilegir þættir iðgjaldsins geta breyst mánaðarlega á vátryggingartímanum, en þeir byggjast á mánaðarlegum mælingum úr smáforriti Verna (smáforritinu) sem veitir upplýsingar um aksturseinkunn, sbr. gr. 1.3 og 1.4, sem getur leitt til lækkunar eða hækkunar iðgjaldsins á milli mánaða.
5.3. Aksturseinkunn getur verið á bilinu 0 til 100. Grunniðgjald vátryggingarinnar miðast við aksturseinkunnina 60. Aksturseinkunn hærri en 60 veitir afslátt frá grunniðgjaldinu þar sem einkunnin 100 veitir 40% afslátt. Einkunn lægri en 60 veldur á hinn bóginn álagi á grunniðgjaldið þar sem einkunnin 40 eða lægri veldur 25% álagi. Á vátryggingar- og endurnýjunarskírteini kemur fram hvert iðgjaldið er í upphafi vátryggingartímabils og sú aksturseinkunn sem iðgjaldið miðast við.
5.4. Eftirfarandi þættir hafa áhrif á aksturseinkunn skv. gr.1.3:
- a. Mýkt sem mælir hversu snöggt ökumaður ekur af stað eða hemlar, svo og hversu mjúk hreyfing bifreiðarinnar er meðan á akstri stendur.
- b. Hraði sem er mæling út frá hraða annarra ökutækja sem aka á sama stað.
- c. Einbeiting sem er notkun síma við akstur, s.s. hvort verið er að tala í símann, senda skilaboð eða nota hann með öðrum hætti.
- d. Tími dags sem ekið er. Það er áhættusamara að aka á háannatíma í umferðinni á virkum dögum og á nóttinni frekar en á öðrum tímum sólarhringsins.
- e. Þreyta við akstur í langan tíma. Í langkeyrslu þarf ökumaður að taka sér hvíld til að halda fullri athygli.
5.5. Aksturseinkunn reiknast á mánaðartímabili og nýtist við iðgjaldaútreikning fyrir næsta mánuð. Aksturseinkunn er núll still í byrjun hvers mánaðar en breytist svo innan mánaðarins í samræmi við akstur.
5.6. Smáforritið samþykkir sjálfkrafa innan 48 tíma frá ferð sem vátryggður fer samkvæmt forritinu að innifela ferðina í útreikningi aksturseinkunnar. Innan þess tíma getur vátryggður hafnað að innifela ferðina í útreikningnum ef sérstök ástæða er fyrir því, t.d. ef hann var farþegið í annarri bifreið í viðkomandi ferð.
5.7. Ef viðskiptavinur hafnar kerfisbundið slæmum ferðum til að hafa áhrif á aksturseinkunn sína mun það hafa áhrif á áhættumatið sem liggur til grundvallar við ákvörðun iðgjalds þegar kemur að endurnýjun tryggingar.
5.8. Við ákvörðun iðgjalds þegar vátrygging er tekin er félaginu heimilt að afla upplýsinga frá öðrum vátryggjendum um tjónareynslu vátryggðs í þessari grein vátrygginga.
5.9. Ef minna en 200 km eru eknir á mánuði samkvæmt smáforritinu miðast iðgjald mánaðarins við grunniðgjaldið auk hámarksálags, þ.e. aksturseinkunnina 40. Ef fyrirsjáanlegt er að akstur í komandi mánuði verður lægri en 200 km, t.a.m. vegna orlofs, getur vátryggður tilkynnt það fyrir fram til Verna og miðast þá iðgjald þess mánaðar við aksturseinkunn í mánuðinum þar á undan.
5.10. Við endurnýjun vátryggingarinnar breytist grunniðgjaldið í samræmi við breytingar á vísitölu og iðgjaldaskrá félagsins auk þess sem aksturseinkunn miðast við þá aksturseinkunn sem vátryggður hafði við lok fyrra vátryggingartímabils.
6. Greiðsla iðgjalds (sérákvæði)
6.1. Lögboðið vátryggingariðgjald bifreiðar ásamt vöxtum og kostnaði hvílir sem lögveð á bifreiðinni og fellur ekki niður við eigendaskipti, sbr. 12. gr. laga 30/2019. Félagið getur krafist nauðungarsölu á bifreiðinni á undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms á grundvelli lögveðsréttar.
7. Eigendaskipti á bifreið, afskráning eða innlögn númera
7.1. Þegar eigendaskipti verða að vátryggðri bifreið gildir fyrri vátrygging gagnvart nýjum eiganda (varanlegum umráðamanni) í 14 daga nema bifreið hafi áður verið afskráð eða ný vátrygging keypt.
7.2. Hafi skráningarmerki (númer) bifreiðar verið lögð inn til vörslu Samgöngustofu eða þess sem hefur umboð hennar til að taka við skráningarmerkjum, felur það í sér uppsögn vátryggingar þessarar og fellur vátryggingin úr gildi við það tímamark.
8. Vátryggingarfjárhæð (sérákvæði)
8.1. Ábyrgð félagsins vegna hvers vátryggingaratburðar takmarkast við vátryggingarfjárhæð samkvæmt lögum um ökutækjatryggingar nr. 30/2019.
B. Lögboðin ábyrgðartrygging ökutækis
9. Vátryggður
9.1. Skráður eigandi eða varanlegur umráðamaður er vátryggður, svo og hver sá sem með samþykki hans notar ökutækið eða ekur því.
10. Bótasvið
10.1. Vátryggingin nær til sérhverrar skaðabótakröfu sem vátryggðum er skylt að vátryggja gegn samkvæmt lögum um ökutækjatryggingar nr. 30/2019, sem eigandi eða umráðamaður hinnar vátryggðu bifreiðar, vegna tjóns er hlýst af notkun hennar.
10.2. Vátryggingin bætir ekki skemmdir á bifreiðinni sjálfri eða öðrum eignum vátryggðs. Þó bætir vátryggingin skemmdir á eigin bifreið vátryggðs af völdum áreksturs hinnar vátryggðu bifreiðar.
11. Ákvörðun bóta fyrir líkamstjón
11.1. Vátryggingin greiðir bætur fyrir líkamstjón þriðja manns á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993.
12. Ákvörðun bóta fyrir munatjón
12.1. Vátryggingin greiðir bætur fyrir munatjón þriðja manns á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar.
13. Endurkrafa (sérákvæði)
13.1. Félagið á endurkröfurétt samkvæmt lögum um ökutækjatryggingar nr. 30/2019, lögum um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, hlutaðeigandi reglugerðum og almennum réttarreglum vegna greiðslu á bótum, t.d. ef:
13.1.1. Tjón varð vegna þess að ökumaður hafði ekki þau réttindi og kunnáttu sem þurfti til þess að stjórna viðkomandi bifreið.
13.1.2. Tjóni hefur verið valdið af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Við mat á því hvort háttsemi telst fela í sér stórkostlegt gáleysi er meðal annars litið til þess hvort vátryggður taldist ekki geta stjórnað ökutæki örugglega eða var óhæfur til þess samkvæmt ákvæðum umferðarlaga vegna undanfarandi neyslu áfengis, fíkniefni, örvandi eða deyfandi lyfja.
13.1.3. Félagið hefur greitt bætur úr vátryggingunni fyrir tjón sem varð þegar liðnir voru 14 dagar frá eigendaskiptum bifreiðar eða vátryggingin hafði fallið úr gildi.
13.1.4. Bifreið var notuð til annars aksturs en þess sem getið er í vátryggingar- eða endurnýjunarskírteini.
13.1.5. Bifreið var leigð út án ökumanns andstætt ákvæðum laga um leigu skráningarskyldra ökutækja nr. 65/2015. Sýni vátryggður fram á að orsakir tjóns eða það hversu víðtækt tjón er verði ekki rakið til brots á fyrirmælum laga þessara á félagið ekki endurkröfu.
14. Staða tjónþola við tjón
14.1. Félagið er greiðsluskylt gagnvart tjónþola, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um ökutækjatryggingar nr. 30/2019. Félaginu og vátryggðum er skylt að upplýsa tjónþola um ábyrgðartryggingu sé hún fyrir hendi.
14.2. Ef fram kemur krafa um bætur á hendur félaginu skal tilkynna það vátryggðum án ástæðulauss dráttar og veita honum upplýsingar um meðferð kröfunnar. Viðurkenning Verna á atriðum sem lúta að ábyrgð er ekki bindandi fyrir vátryggðan.
14.3. Nú tilkynnir tjónþoli félaginu að hann hyggist höfða mál á hendur því og getur það þá krafist þess að hann beini málshöfðuninni einnig gegn vátryggðum, sbr. 2. mgr. 21. gr. laga um ökutækjatryggingar nr. 30/2019. Skal félagið tilkynna tjónþola um þá kröfu sínu án ástæðulausrar tafar og á sannanlegan hátt.
14.4. Um stöðu tjónþola að öðru leyti vísast til 44. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 og ákvæða 19. og 21. gr. laga um ökutækjatryggingar nr. 30/2019.
C. Lögboðin slysatrygging ökumanns og eiganda
15. Vátryggður
15.1. Vátryggður er skráður eigandi bifreiðar eða umráðamaður hennar og sérhver ökumaður sem bifreiðinni stjórnar, enda hafi hann ekki notað bifreiðina í algeru heimildarleysi.
16. Bótasvið
16.1. Vátryggingin bætir líkamstjón vegna slyss sem:
16.1.1. Ökumaður verður fyrir við stjórn hinnar vátryggðu bifreiðar, enda verður slysið rakið til notkunar hennar, sbr. 9. gr. laga um ökutækjatryggingar nr. 30/2019.
16.1.2. Vátryggður verður fyrir sem farþegi í hinni vátryggðu bifreið, eða af völdum hennar, enda verði slysið rakið til notkunar hennar, sbr. 9. gr. laga um ökutækjatryggingar nr. 30/2019.
17. Ákvörðun bóta
17.1. Vátryggingin greiðir bætur fyrir líkamstjón vátryggðs á grundvelli I. kafla skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga um ökutækjatryggingar nr. 30/2019.
17.2. Ef vátryggður á rétt á skaðabótum vegna slyss eftir lögum um ökutækjatryggingar nr. 30/2019, eða öðrum skaðabótareglum, lækka bætur úr þessari vátryggingu sem því nemur, sbr. 9. gr. laga um ökutækjatryggingar nr. 30/2019.
Þessir skilmálar gilda frá og með 8. apríl 2022.