Rafræn samskipti
1. Gildissvið skilmála og gildistaka gagnvart vátryggingartaka
1.1 Skilmálar þessir gilda um rafræn samskipti og afhendingu gagna milli Verna MGA ehf., kt. 610421-0830, (hér eftir „Verna MGA“), og vátryggingartaka, (í skilmálum þessum hér eftir „rafræn afhending“). Verna MGA er vátryggingaumboðsmaður samkvæmt lögum nr. 62/2019 um dreifingu vátrygginga og selur vátryggingar á ábyrgð vátryggingafélags með starfsleyfi á Íslandi, m.a. í gegnum snjallsímaforritið Verna App (hér eftir „smáforritið“).
1.2 Smáforritið er á vegum Verna hf., kt. 550103-2650 (hér eftir „Verna“).
1.3 Skilmálarnir taka gildi gagnvart vátryggingartaka þegar hann hefur samþykkt þá í smáforritinu eða með öðrum fullnægjandi hætti og keypt vátryggingar fyrir milligöngu Verna MGA.
2. Afhending gagna og upplýsinga á rafrænan hátt
2.1 Með samþykki þessara skilmála veitir vátryggingartaki Verna MGA heimild til þess að beina samskiptum sínum við vátryggingartaka og afhenda gögn og aðrar upplýsingar til vátryggingartaka, s.s. ýmsar tilkynningar, í gegnum smáforritið í stað þess að vátryggingartaki fái gögn og aðrar upplýsingar sendar til sín á pappírsformi.
2.2 Tilkynningar Verna MGA til vátryggingartaka, afhending gagna, þ.m.t. vátryggingar- og endurnýjunarskírteina, og önnur upplýsingagjöf Verna MGA, hvort sem upplýsingagjöfin er lögbundin eða ekki, fer þannig fram í smáforritinu.
2.3 Rafræn afhending gagna í smáforritinu jafngildir afhendingu á pappírsformi. Þannig telst sending gagna og annarra upplýsinga til vátryggingartaka í smáforritið fela í sér afhendingu upplýsinga á varanlegum miðli í skilningi laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.
3. Tilkynning um rafræna afhendingu
3.1 Þegar Verna MGA sendir vátryggingartaka upplýsingar eða gögn í smáforritið er vátryggingartaka tilkynnt um slíka sendingu með tölvupósti eða smáskilaboðum í síma, eða með öðrum rafrænum hætti sem vátryggingartaki hefur valið og er í boði hjá Verna MGA á hverjum tíma.
3.2 Afhending á upplýsingum eða gögnum telst hafa átt sér stað á þeim degi sem Verna MGA sendir vátryggingartaka tilkynningu með rafrænum hætti um að ný gögn eða upplýsingar hafi verið gerðar aðgengilegar í smáforritinu.
3.3 Tölvupóstfang, farsímanúmer eða önnur rafræn samskiptaleið sem Verna MGA notast við í tengslum við tilkynningar um rafræna afhendingu, sbr. gr. 3.1, eru þær upplýsingar um samskiptaleið sem vátryggingartaki hefur skráð og samþykkt í smáforritinu. Vátryggingartaki ber ábyrgð á því að upplýsingar um tölvupóstfang, farsímanúmer eða í tengslum við aðra rafræna samskiptaleið séu ávallt rétt skráðar í smáforritinu.
3.4 Hvorki Verna MGA né viðkomandi vátryggingafélag ber ábyrgð á tjóni sem vátryggingartaki kann að verða fyrir vegna breytinga á tölvupóstfangi, farsímanúmeri eða upplýsingum um aðra samskiptaleið við vátryggingartaka sem hann hefur ekki skráð í smáforritinu.
4. Afturköllun samþykkis á rafrænni afhendingu
4.1 Vátryggingartaki getur hvenær sem er óskað eftir gögnum skv. II. kafla laga um vátryggingarsamninga á pappír.
5. Rafræn undirskrift vátryggingartaka
5.1 Með samþykki þessara skilmála lýsir vátryggingartaki því yfir að hann geri sér grein fyrir því og samþykkir að þegar hann hakar við, undirritar með rafrænum hætti eða staðfestir með öðrum hætti inn í smáforritinu að hann samþykki tiltekin gögn þá feli það í sér vilja hans til þess að undirrita viðkomandi skjal og jafngildir slíkt samþykki fullgildri undirritun hans gagnvart Verna MGA og viðkomandi vátryggingafélagi.
6. Öryggiskröfur og tæknibúnaður
6.1 Með beiðni um afhendingu rafrænna gagna og samþykki á skilmálum þessum lýsir vátryggingartaki því yfir og ábyrgist að hann geti móttekið og nálgast gögn þau sem Verna MGA hefur heimild til þess að senda honum með rafrænum hætti í gegnum smáforritið og að vátryggingartaki hafi aðgang að uppgefnu tölvupóstfangi, farsímanúmeri, og öðrum samskiptaleiðum sem vátryggingartaki hefur samþykkt að Verna MGA megi nota til að senda vátryggingartaka tilkynningar.
6.2 Vátryggingartaki lýsir því jafnframt yfir að hann geti opnað skjöl í smáforritinu í því viðmóti sem Verna MGA notast við hverju sinni. Geti vátryggingartaki ekki opnað rafræn skjöl frá Verna MGA skal vátryggingartaki tilkynna Verna MGA þar um tafarlaust.
7. Ábyrgð Verna MGA og viðkomandi vátryggingafélags
7.1 Verna MGA ber ekki ábyrgð á því tjóni sem kann að orsakast beint eða óbeint vegna galla eða bilunar í endabúnaði vátryggingartaka, tengingar hans við veraldarvefinn eða við smáforritið eða af öðrum þeim orsökum sem kunna að valda því að aðgerðir í smáforritinu geta ekki farið fram eða verða með öðrum hætti en ætlast var til, s.s. vegna tæknibilana eða truflana í tölvukerfi.
7.2 Verna MGA ber ekki ábyrgð á tjóni sem hlýst af vanþekkingu, misskilningi eða misnotkun vátryggingartaka eða annars aðila með eða án umboðs vátryggingartaka, eða tjóni sem rekja má til rangra aðgerða vátryggingartaka eða annars aðila sem framkvæmdar eru undir auðkenni vátryggingartaka.
7.3 Verna MGA ber ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til utanaðkomandi bilana, rangra utanaðkomandi upplýsinga o.þ.h.
7.4 Þá ber Verna MGA ekki ábyrgð á tjóni sem rekja má til atvika sem stafa af náttúruhamförum, styrjöldum, verkföllum eða vegna annarra tilvika sem telja verður að falli undir óviðráðanleg atvik.
7.5 Viðkomandi vátryggingafélag ber heldur ekki ábyrgð á tjóni vátryggingartaka vegna þeirra atvika sem tilgreind eru greinum 7.1 til 7.4 hér að framan.
8. Breytingar á skilmálum
8.1 Verna MGA áskilur sér rétt til þess að breyta skilmálum þessum. Tilkynna skal vátryggingartaka um slíkar breytingar með birtingu tilkynningar um breytta skilmála í smáforritinu.
9. Önnur ákvæði
9.1 Rísi ágreiningur milli vátryggingartaka og Verna MGA í tengslum við skilmála þessa sem aðilar geta ekki leyst sín á milli skal bera slíkan ágreining undir Héraðsdóm Reykjavíkur.
9.2 Um skilmála þessa gilda lög á Íslandi.
Skilmálar þessir taka gildi 10. apríl 2022.